Metaðsókn á Handverkshátíð

Hátíðin er opin í dag mánudag kl. 12-19.

Metaðsókn var á hátíðina um helgina því 15.000 manns hafa sótt hátíðina heim.

Bros á hverju andliti í 20 stiga hita og sól hefur skapað frábæra stemningu á hátíðarsvæðinu.

Hönnunarsamskeppni um nýsköpun í ullarvörum var í tengslum við sýninguna og þá þótti við hæfi að sýna rúning á ullinni.  Birgir Arason rúningsmaður sýnir daglega vélrúning og fékk um helgina til liðs við sig konur í sveitinni með rokkinn og sátu þær við spuna.

Margt er um óvenjulegt hráefni á svæðinu sem hefur vakið eftirtekt.  Tískusýningar, fyrirlestrar og námskeið krydda dagskrána í hvívetna.

Að þessu sinni er staðið að hátíðinni á annan máta en verið hefur því félögin í sveitinni hafa lagt hönd á bagga.  Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi, þrjú kvenfélög Aldan/Voröld, Hjálpin og Iðunn, Ungmennafélagið Samherjar og Hjálparsveitin Dalbjörg ásamt gríðarlegum fjölda tónlistarfólks og skemmtikrafta, allt fólk sem tengist Eyjafjarðarsveit á einn eða annan hátt.

Handverkskona ársins 2009 var verðlaunuð á kvöldvöku á laugardagskvöldinu og þann titil hlaut Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir handverkskona með meiru.

Síðasti opnunardagur vel heppnaðrar sýningar er í dag, mánudag milli 12-19.

Handverkskona ársins 2009 - Guðrún Á. Steingrímsdóttir