Safnaverðlaunin 2022 – Tilnefning

Fréttir

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent.

Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum og verður auglýstur nánar síðar.

Minjasafnið á Akureyri – safn í tengslum við samfélagið
Minjasafnið á Akureyri er rótfast í eyfirsku samfélagi og hefur verið það frá stofnun árið 1962. Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.
Minjasafnið á Akureyri hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki sem af áhuga og metnaði hefur skipað því í fremstu röð minjasafna. Safnið hefur um árabil staðið mjög vel að fræðslu fyrir öll skólastig og skapað gott samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fleiri stofnanir og haldið fjölda fagnámskeiða fyrir nágrannasöfnin. Safnið hefur tekið virkan þátt í Eyfirska safnaklasanum frá stofnun hans árið 2005 og lagt mikla rækt við samstarf, með áherslu á alla aldurshópa. Minjasafnið á Akureyri er m.a. í samstarfi við Virk, Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og Akureyrarbæ. Í því samstarfi sinnir safnið vel samfélagslegu hlutverki sínu og aðstoðar einstaklinga við að koma jafnvægi á líf sitt um leið og það styrkir eigin starfsemi. Safnið miðlar eyfirskum menningararfi með ýmsum hætti, bæði í útgáfu og sýningum á Akureyri: í Kirkjuhvoli, í Nonnahúsi, Davíðshúsi og Friðbjarnarhúsi. Þá hefur Minjasafnið á Akureyri, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands, umsjón með gamla torfbænum í Laufási og sýningahaldi þar. Ein viðamesta sýning safnsins nú er sýningin Tónlistarbærinn Akureyri sem opnaði 2020 en hún er afrakstur fjögurra ára frumrannsóknar á tónlistarmenningu bæjarins. Safnið notar ýmsar leiðir til að virkja íbúa starfssvæðisins, eins og að bjóða ungskáldum að taka þátt í viðburðaröðinni Allar gáttir opnar og Skáldastund í Davíðshúsi og leita eftir beinni þátttöku íbúa í ljósmyndasýningaröðinni Þekkir þú… og ljósmyndasýningunni Hér stóð búð. Þá voru íbúar beðnir um aðstoð við að greina myndefnið, með mjög góðum árangri.

Akureyri 23. mars 2022.

Faglegt starf á grunni samfélagslegs hlutverks

Í ár fagnar Minjasafnið á Akureyri 60 ára starfsafmæli. Óhætt er að segja að starfið hafi vaxið gríðarlega frá stofnun þess en rauði þráðurinn hefur verið frá upphafi faglegt safnastarf og öflug samfélagsleg tenging. Sú tenging var í fyrstu bundin við söfnun og skráningu gripa og ljósmynda en er nú samofin öllu starfi safnsins og hefur eflst jafnt og þétt síðustu áratugi.

Faglegt starf safnsins hefur eflst, en jafnframt hefur starfsemin vaxið. Í safnasamfélaginu hefur Minjasafnið á Akureyri gegnt mikilvægu hlutverki. Starfsfólk safnsins hefur frá upphafi verið hryggjarstykkið í starfi Eyfirska safnaklasans sem starfað hefur frá 2005 lengst af undir forystu starfsfólks Minjasafnsins. Minjasafnið hefur undanfarin ár staðið fyrir og sótt um styrki til að halda námskeið í faglegu safnastarfi og boðið öðrum söfnum á svæðinu á þau. Þá er leitað til safnsins um fagleg atriði bæði frá söfnum í nágrenninu og víðar og í vaxandi mæli frá sveitarfélögum. Þannig er jafnvel farið að líta á Minjasafnið á Akureyri sem ábyrgðarsafn þó það hafi ekki formlega þá stöðu.

Félagslegt hlutverk safnsins hefur einnig farið vaxandi. Undanfarinn áratug hefur safnið verið í virku samstarfi við Akureyrarbæ, Virk, Vinnumálastofnun og Fangelsismálastofnun um störf fyrir einstaklinga sem eru að stíga aftur út í samfélagið. Á hverjum tíma eru 2-3 starfsmenn frá þessum stofnunum að störfum hjá Minjasafninu. Á sumrin eru þeir jafnvel tvöfalt fleiri. Með þessu styður safnið við félagslegt hlutverk sitt, aðstoðar einstaklinga við að komast aftur á fæturna en jafnframt hafa þessir einstaklingar hjálpað safninu á margvíslegan hátt í innra starfi safnsins. Þannig styður safnið við samfélagið en nýtur jafnframt stuðning þess.

Sýninga- og viðburðastarf hefur einnig samfélagslega miðað. Árið 2020 var opnuð sýningin Tónlistarbærinn Akureyri þar sem sögu tónlistar er gerð skil á víðum grunni. Sýningin er byggð á nokkurra ára rannsókn á þessum mikilvæga menningararfi svæðisins. Menningararfi sem íbúum hafði yfirsést eða gleymt. Sýningunni fylgdi útgáfa blaðs, til að sem flestir hefðu aðgang að útgáfunni var verði stillt í hóf og gefið út afar veglegt dagblað.

Gripir á sýningunni eru að lang stærstum hluta fengnir að láni frá íbúum og tónlistarfólki svæðisins. Á flestum sýningum hefur safnið leitað til samfélagsins um gripi eða myndir til að sýna. Einn hluti af slíkri samfélagstengingu eru ljósmyndasýningaröðin Þekkir þú… og sýningin Hér stóð búð. Með slíkum sýningum er leitað að þekkingu og upplýsingum um myndefnið en ekki síður þeim sögum sem vakna við skoðun ljósmyndanna. Sögum sem annars glatast.

Minjasafnið hefur undanfarin ár veitt ungu listafólki vettvang til að koma listsköpun sinni á framfæri. Hluti tónlistarsýningarinnar var að gefa fjölmennum hópi ungs tónlistarfólks tækifæri á að koma sér og sinni tónlist á framfæri. Þannig eru 20 ungir listamenn í forgrunni sýningarinnar en einnig er í sýningarsalnum svið þar sem ungt tónlistarfólk hefur haldið tónleika.

Í Davíðshúsi hefur verið búinn til vettvangur fyrir bókmenntir, einkum ljóðskáld. Á viðburðaröðinni Allar gáttir opnar og Skáldastund í Davíðshúsi hafa ekki síst ung skáld stigið fram og komið verkum sínum á framfæri í bland við landsþekkt skáld. Minjasafnið hefur einnig að útgáfu á verkum ungskálda í Eyjafirði.

Safnfræðsla Minjasafnsins hefur samfélagslega tengingu út fyrir veggi safnsins. Starfsfólk safnsins heimsækir í auknum mæli leikskóla, grunnskóla og háskóla með fjölbreytta fræðsludagskrá. Þá eru þessar heimsóknir ekki síður vaxandi hluti fullorðinsfræðslu safnsins, sem felst í fyrirlestrum fyrir ýmis félagasamtök, félag eldri borgara og heimsóknum á elliheimili þar sem unnið er með minningarhópum. Þá Safnið hefur um árabil unnið með samtökum í samfélaginu Eins og Þjóðháttafélaginu Handraðanum og er að þróa samstarf á svipuðum nótum við Akureyrarakademíuna og Ljósmyndafélagið Álkuna.

Stærsta verkefnið og mikilvægasta er eins og áður söfnun og varðveisla menningarminja samfélagsins. Það er mikilvægasti samfélagslegi þráðurinn. Þar hefur söfnun ljósmynda ekki síst verið öflug tenging við samfélagið. Í þennan brunn er sífellt meira leitað eftir að hann varð sýnilegur og stækkar með hverju árinu.

Sá samfélagslegi þráður sem lagður var við stofnun safnsins 1962 hefur styrkst og miðar ofangreint starf að því að styrkja þau bönd sem liggja milli samfélagsins og safnsins.

Virðingarfyllst, fyrir hönd stjórn og starfsfólks Minjasafnsins á Akureyri
Sigfús Karlsson, formaður stjórnar og Haraldur Þór safnstjóri.