Umsögn sveitarstjórnar um frumvarp til breytingu á lögum

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggst gegn frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Aukinn innflutningur mun auka hættuna á sýklalyfjaónæmi, fjölga sýkingum í mönnum, ógna viðkvæmum búfjárstofnum og hafa mikil hagræn áhrif á landsbyggðinni.

Helstu sérfræðingar landsins í smitsjúkdómum og sýklafræðum hafa ítrekað varað við aukinni hættu á sýklalyfjaónæmi. Sýklalyfjaónæmi í fólki á Íslandi er það lægsta sem þekkist í heiminum þrátt fyrir að notkun fólks á sýklalyfjum sé svipuð og í Evrópu. Það er skylda okkar að gera allt sem hægt er til að berjast gegn sýklalyfjaónæmi og verja lýðheilsu þjóðarinnar.
Einnig ber okkur skylda til að verja íslenska búfjárstofna fyrir sjúkdómum. Það er gríðarlega mikilvægt að halda þeirri sérstöðu sem hefur verið í sjúkdómstöðu íslenskra búfjarstofna. Það á að vera öllum ljóst hve viðkvæmir bústofnar okkar eru vegna langvarandi einangrunar sem þeir hafa búið við.

Landbúnaður er mikilvægasta atvinnugrein Eyjafjarðarsveitar og er nauðsynlegt að auka starfsöryggi innan greinarinnar. Viljum við í því samhengi benda á nýútkomna skýrslu Landfræðilegt og efnahagslegt litróf landbúnaðar á Íslandi. Staðbundið efnahagslegt mikilvægi landbúnaðar á Íslandi sem unnin var að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem efndi til samstarfs allra atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ríkisstjórn og alla alþingismenn til að íhuga alvarlega hvaða afleiðingar þetta frumvarp mun hafa og styðja þess í stað við innlenda matvælaframleiðslu og sérstöðu landsins og þar með lýðheilsu þjóðarinnar.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vill einnig vekja athygli á að framkomnar mótvægisaðgerðir í aðgerðaráætlun eru ófjármagnaðar og lítið útfærðar.

Nauðsynleg er að meta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og setja fram aðgerðir til að jafna samkeppnisstöðu t.d. með því að yfirfara tolla.

Að lokum er það lágmarkskrafa að stjórnvöld hlutist til um að merkingar kjöts séu með þeim hætti að augljóst sé hvaðan varan er upprunin.