Uppskera og handverk 2008

Handverkshátíðin 2008 gekk mjög vel og einnig allur undirbúningur. Í ár voru um 70 sýnendur (básar). Meðal sýnenda voru einstaklingar, félög og hópar því var það að vanda fjöldi fólks sem tók þátt í sýningunni.

Eitthvað færri gestir greiddu aðgangseyri að hátíðinni í ár en í fyrra en eins og alltaf er erfitt að hafa nákvæma tölu á fjölda gesta. Miðinn gilti alla helgina líkt og s. l. ár og frítt var fyrir börn yngri en 12 ára. Eins fengu eldri borgarar og öryrkjar afslátt á miðaverði.

Þema hátíðarinnar í ár var miðaldir og setti Gásahópurinn upp skemmtilegt lítið miðaldarþorp á hátíðarsvæðinu þar sem sýndar voru ýmsar vinnuaðferðir frá miðöldum. Ýmislegt var um var að vera þar yfir daginn en meðal þess sem þar var starfað var litun á ull, fléttun í reipi, eldsmiður var á staðnum og einnig völva og fornskrifari. Einnig var þar elduð kjötsúpa og margt fleira.

Tveir fyrirlestrar voru í boði á hátíðinni, Guðmundur Oddur Magnússon hélt fyrirlesturinn „Íslenska munstrið og uppruni þess“, en sá fyrirlestur vakti mikla athygli. Þá kynntu leirlistakonurnar Paivi Takala og Merja Ranki starfsemi finnska keramikverkstæðisins SAVEA og listamenn sem þar vinna.

Meðal nýjunga á hátíðinni í ár var finnsk-íslensk leirlistasýning í salnum þar sem 11 leirlistakonur kynntu verk sín og er ætlunin að hafa sýningu að ári en með öðrum efnivið.

Veitingaraðili hátíðarinnar að þessu sinni var Friðrik V, en hann setti skemmtilegan svip á svæðið. Félagið Matur úr héraði var einnig í liði með honum og var sala á vörum frá aðilum þess félags.

Á hátíðarsamkomunni sem haldin var á laugardagskvöldið var valinn handverksmaður ársins og hlaut þá viðurkenningu Beate Stormo fyrir mikið fumkvöðlastarf í að varðveita uppruna okkar. Hafþór Þórhallsson fékk viðurkenningu fyrir sölubás ársins 2008.

Í ár var boðið upp á námskeið í silfursmiði, útsaum, körfugerð og miðaldarkjólasaum. Það var góð aðsókn á námskeiðin og varð úr að við urðum að hafa tvö útsaumsnámskeið, en kennari þess námskeiðs, James Hunting vakti mikla athygli fyrir verk sín á sýningunni og var því mikill áhugi fyrir námskeiði hans.