Verðlaunahafar Handverkshátíðar 2015

Árlega velur valnefnd Handverkshátíðar fallegasta sölubás ársins og handverksmann ársins. Handverksmaður ársins er Þórdís Jónsdóttir og verðlaun fyrir sölubás ársins hlýtur Vagg og Velta. Valnefnd veitti ein aukaverðlaun í ár, Gleði og bjartsýnisverðlaunin, en þau hlaut Hildur Harðardóttir með sölubásinn Hildur H. List-Hönnun. Fleira vakti athygli valnefndar, s.s. bás Hjartalags, Leðurverkstæðið Hlöðutúni og Erna Jónsdóttir leirlistamaður.
Hér má lesa umsagnir valnefndar:

Handverksmaður ársins 
Þórdís Jónsdóttir
Fágað og listrænt handverk Þórdísar og samspil forms og lita heillaði dómnefndina. Fullkomið vald á viðfangsefninu birtist með skýrum og fjölbreyttum hætti.

Sölubás ársins
Vagg og Velta
Vel unninn sölubás þar sem varan nýtur sín í einfaldri framsetningu. Lausnin í þessu takmarkaða rými er áhugaverð.

Gleði og bjartsýnisverðlaunin
Hildur Harðardóttir – Hildur H. List-Hönnun
Einstakt safn karaktera sem í fjölbreytileika sínum vekja gleði og kátínu. Hildur tekst á við flókið viðfangsefni af listrænu innsæi og tekur sig mátulega alvarlega.

Aðrir sýnendur sem vöktu athygli valnefndar:
Hjartalag
Heilstæð og einlæg tjáning sem endurspeglast í öllum vöruþáttum. Fallega framsettur bás.

Leðurverkstæðið Hlöðutúni
Hnakkur fyrir fatlaða. Glæsilegur nytjagripur sem gerir fleirum kleift að stunda hestaíþróttina. Sérstaklega tók valnefndinni eftir að ekki var slegið af fagurfræðilegum kröfum við gerð hnakksins.

Erna Jónsdóttir leirlistamaður
Skemmtilega unnið út frá rjúpunni sem þema. Sérstaklega var rjúpnaflautan áhugaverð.

Valnefndina skipuðu:
Haraldur Ingi Haraldsson – myndlistamaður og verkefnastjóri Listasafns Akureyrar
Karl Frímannsson – sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar og stjórnarmaður Handverkshátíðar
Sveina Björk Jóhannesdóttir – textílhönnuður og kennari

Í ár voru verðlaunagripirnir unnir af Guðrúnu Gísladóttur.

Þórdís Jónsdóttir - Handverksmaður 2015

Tinna Bjarnadóttir -  Vagg og Velta - Sölubás ársins 2015 

 Hildur Harðardóttir - Gleðir og bjartsýnisverðlaunin 2015