Viðbragðsáætlun Eyjafjarðarsveitar vegna heimsfaraldurs

Fréttir
Viðbragðsáætlun Eyjafjarðarsveitar vegna heimsfaraldurs
Viðbragðsáætlun Eyjafjarðarsveitar vegna heimsfaraldurs

Kæru sveitungar, eins og fram kom á blaðamannafundi heilbrigðisráðherra í morgun hefur verið sett á samkomubann á landinu frá og með 16.mars næstkomandi.

Mikilvægt er að benda á að enn hefur ekkert smit verið staðfest á norðurlandi. Þó er rétt að biðla til íbúa að halda áfram að sýna almenna skynsemi í návígi hvors annars, huga að hreinlæti og leggja okkar að mörkum við að draga úr mögulegum smitleiðum og með því að lágmarka eftir fremsta megni álagið á heilbrigðiskerfi landsins.

Undanfarna viku hefur mikil vinna átt sér stað varðandi viðbragðsáætlun Eyjafjarðarsveitar við heimsfaraldri. Snýr sú áætlun fyrst og fremst að rekstri sveitarfélagsins og hvernig hátta skuli starfsemi þess miðað við mismunandi stig í yfirlýstum heimsfaraldri.

Með virkjun viðbragðsáætlunarinnar, sem nú þegar hefur verið gert, eru ákveðin úrræði færð í hendur stjórnenda stofnanna sveitarfélagsins. Má þar meðal annar nefna heimildir til að hagræða opnanatímum og takmarka aðgengi utanaðkomandi aðila að viðkomandi stofnun. Þá er þeim falið að draga úr viðburðum sem ekki eru nauðsynlegir til starfsins og eftir atvikum hætta þeim alveg.

Viðbragðsáætlun þessi er almenn fyrir rekstur sveitarfélagsins og má telja líklegt að hún uppfærist reglulega.

Mjög góðar upplýsingar má finna á heimasíðunni www.covid.is sem haldið er úti af Embætti landlæknis og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Þeir sem telja sig upplifa einkenni Covid 19 er bent á að hringja í 1700. Vert er að benda á að álag á símkerfi þeirra er gríðarlegt og getur tekið einhvern tíma að ná þangað inn.

Viðbragðsáætlun sveitarfélagsins má nálgast hér.