Framkvæmdaráð

101. fundur 16. febrúar 2021 kl. 08:15 - 11:30 fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Jón Stefánsson
  • Hermann Ingi Gunnarsson
  • Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri

Dagskrá:

1. Húsnæðismál grunn- og leikskóla - 1901017
Arkitektar mæta á vinnufund með framkvæmdaráði þar sem farið er yfir áherslur sveitarstjórnar og framkvæmdaráðs til nýbyggingarinnar.
Á fund framkvæmdaráðs mættu arkitektarnir Garðar Guðnason og Sigurður Gústafsson frá Arkitektasofunni OG. Á fundinum kom fram að ákveðið hefur verið að fara svokallaða blandaða leið við byggingu leikskóla og stækkun grunnskóla, þ.e. að leikskólinn verði í viðbyggingu vestan við núverandi hús en sameiginleg aðstaða og hugsanlega kennslustofur/fjölnota rými, verði byggt ofan á núverandi hús. Ennfremur sé gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og hreyfisal ofan á núverandi búningsklefum íþróttamiðstöðvar auk útirýmis fyrir líkamsrækt. Lagt var fram minnisblað frá 12.2.2021, þar sem helstu áherslur og markmið sveitarstjórnar varðandi skólann koma fram.
Fundarmenn voru sammála um að það að byggja alfarið ofan á núverandi skólahúsnæði hefði einnig verið mjög fýsilegur kostur en að meiri sátt væri um blönduðu leiðina í samfélaginu og meðal starfsmanna leikskólans. Þá er lögð áhersla að sameina kosti beggja leiða í endanlegri hönnun byggingarinnar.
Meginmarkmið er að Hrafnagilsskóli verði einn skóli með samþætta starfsemi leikskóla og grunnskóla. Öll útfærsla bygginga þarf að taka mið af þessu. Kennsludeildir þurfa að raðast þannig að þær stuðli að þessu, t.d þannig að yngstu börn á leikskólastigi séu vestast í viðbyggingu en eldri börn nær kennslustofum grunnskóla.
Á efri hæð væri kaffistofa starfsmanna. Mögulegt væri að ganga út úr kaffistofu út á svalir á efri hæð hússins. Mikil áhersla er á að kaffistofan sameini alla starfsmenn stofnunarinnar. Á efri hæðinni eru einnig skrifstofur stjórnenda. Gera þarf ráð fyrir að rými efri hæðar séu nýtt af allri starfsemi stofnunarinnar og jafnvel tónlistaskóla/tónmennt til að auka nýtingu rýmanna.
Kennslustofur grunnskóla þurfa að raðast saman eftir stigum. Yngsta stig er 1.-4. bekkur, miðstig 5.-7. bekkur og unglingastig 8.-10. bekkur. Hvert stig þarf jafnramt að hafa svolítið sameiginlegt rými, eða „hjarta“ sem er mismunandi eftir þroskastigi stiganna. Á leikskólastigi eru svo börn frá eins árs aldri fram að grunnskóla, með mjög ólíkar þarfir.
Skoða þarf vel hvaða rými geta samnýst. Er þörf fyrir listaskála í leikskóla, eða getur slíkt rými verið samnýtt með list- og verkgreinastofum grunnskóla? Er þörf fyrir fjölnotasal í viðbyggingu, geta leikskólabörn allt eins notað sal annars staðar í byggingunni? Forðast þarf að vannýta rými og m.a. hvernig hægt er að samnýta kennslustofur og rými fyrir frístund eftir skólatíma og hvort hægt sé að nýta ýmis rými starfseminnar fyrir tónlistaskóla.
Rætt var um leikskólalóð, útisvæði almennt og útikennslu. Fundarmenn voru sammála um að útisvæðin ættu að hvetja til sköpunar og umhverfisvitundar. Það gæti þýtt minna af stórum leiktækjum með fyrirfram ákveðnum möguleikum. Við yngstu leikskóladeildir þarf að vera afmarkað og skjólgott kerrusvæði og afmarkað leiksvæði fyrir þau börn.
Lögð er áhersla á að útikennsla verði hluti af náminu, en hún getur verið margvísleg og nýtt útisvæðið á mismunandi hátt, fremur en að fara öll fram á einum stað. Sett var fram hugmynd um óupphitað glerhýsi/gróðurhús með snjóbræðslu í tengslum við leikskólalóð, sem gæti nýst vel í starfinu og mögulega einnig fyrir frístund eftir skólatíma.
Skoða þarf vel þau svæði sem myndast þar sem viðbygging mætir núverandi húsi, óæskilegt er að þar myndist þröng skot sem liggja illa við veðri eða skapa aðstæður til eineltis.
Rætt var um mögulegar byggingaraðferðir og hvernig mestri hagkvæmni í byggingu yrði náð. Viðbygging og ofanábygging eru töluvert ólíkar í eðli sínu, og ekki sjálfgefið að hagkvæmast sé að bjóða þær út í einum pakka.
Viðbygging er þekkt stærð og hentar vel til útboðs. Það má hugsa sér ýmsar byggingaraðferðir, steypt eða léttbyggt, byggt á staðnum eða með fyrirframgerðum einingum. Sú arðferð sem valin verður þarf að samrýmast því markmiði að hægt sé að byggja ofan á húsið síðar en horft er á það sem framtíðar vaxtarmöguleika skólans. Fyrir ofanábyggingu og minni uppfyllingar gæti hentað betur að fara aðrar leiðir svosem að semja við verktaka um tímavinnu. Þessa kosti þarf að skoða betur og eru ráðgjafar þar með í ráðum.
Næstu skref eru þau að Arkitektastofan gerir tillögu að endurbótum á grunnmynd viðbyggingar með tilliti til ofangreindra atriða. Þetta verði gert eins fljótt og mögulegt er, aðilar skiptist svo á hugmyndum þar til náðst hefur lausn sem allir eru sáttir við.
Samþykkt


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:30

Getum við bætt efni síðunnar?