Óshólmanefnd

17. fundur 05. júlí 2023 kl. 17:00 - 18:55 Bústólpi ehf. á Akureyri
Nefndarmenn
  • Emilía Baldursdóttir
  • Hólmgeir Karlsson
  • Jóhann Reynir Eysteinsson
  • Ólafur Kjartansson
Fundargerð ritaði: Hólmgeir Karlsson

Fundur í Óshólmanefnd þann 5. júlí 2023, kl. 17:00
Mætt: Emilía Baldursdóttir, Hólmgeir Karlsson, Jóhann Reynir Eysteinsson og Ólafur Kjartansson. Hjördís Þórhallsdóttir boðaði forföll.
Fundarstaður: Bústólpi ehf. á Akureyri
Emilía Baldursdóttir formaður nefndarinnar stýrði fundi og fundargerð ritaði Hólmgeir Karlsson.
Dagskrá fundarins:
1. Umsögn um tillögu að deiliskipulagi og breytingu á Aðalskipulagi vegna hótels í Varðgjárlandi.
2. Mörk hverfisverndarsvæðis við Eyjafjarðarbraut eystri.
3. Önnur mál.
Afgreiðsla nefndarinnar – fundarsamþykkt:
1) Umsögn um tillögu að deiliskipulagi og breytingu á Aðalskipulagi vegna hótels í Varðgjárlandi
Skipulagsfulltrúi hjá Skipulags- og byggingafulltrúa Eyjafjarðar óskaði í tölvupósti 20. júní s.l. eftir umsögn Óshólmanefndar um aðal- og deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar í tengslum við Skógarböðin í landi Ytri-Varðgjár.
Óshólmanefndin lýsir ánægju sinni með þá áherslu sem fram kemur í tillögunum um að mannvirki falli sem best að landslagi og að framkvæmdir hafi sem minnst áhrif á náttúru svæðisins. Sömuleiðis varðandi áform um frárennslismál sem hugsanlega gætu líka þjónað byggðinni í grennd sem væri mikill akkur í og fyrirbyggjandi varðandi mengun m.a. út í lónið.
Engu að síður kemur fram að fella þurfi skóg á töluverðu svæði, sækja þurfi um undanþágu frá lágmarksfjarlægð frá strandlínu og landfylling verði nokkur út í lónið sem heyrir undir 61. gr náttúruverndarlaga. Í þeim lögum segir að slíkum svæðum skuli ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til og ekki séu aðrir kostir fyrir hendi.
Nú þegar hefur verið lagður akvegur yfir lónið frá Eyjafjarðarbraut eystri að fyrirhuguðum byggingarstað og einnig lagður göngustígur við fjöruborð frá Skógarböðunum að væntanlegu hóteli. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að ryðja þurfi skóg að einhverju marki fyrir byggingarreit og einnig á 8 m breiðu svæði til viðbótar frá skógarböðum að hóteli.
Í gildandi aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir íbúðabyggð er áætluð landfylling allt að 1,5 ha, ef sú byggð kæmi til framkvæmda, með fyrirvara um deiliskipulag. Í fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir hótelið er landfylling sögð orðin 0,1 ha en gert er ráð fyrir að auka hana um 0,2 ha til viðbótar fyrir bílastæði og aðkomu. Þetta er vissulega minni röskun á lóninu en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að gætu orðið mestar en röskun engu að síður.
Lónið, sem heyrir eins og áður sagði undir náttúruverndarlög, er mikilvægur fæðustaður fugla sérstaklega að vori m.a. fyrir fugla sem verpa á hverfisverndarsvæðinu vestan Eyjafjarðarbrautar. Á það ekki síst við um grynningar og leirur einmitt þar sem viðbótar landfylling virðist eiga að koma. Þarna rennur lækur út í lónið sem eykur fæðugildið og því mikilvægt að lækurinn fái að halda sér.
Út frá framansögðu virðist nokkuð ljóst að umfang og stærð áætlaðra framkvæmda rúmist ekki á umræddu svæði nema gengið sé töluvert á lífríki svæðisins bæði á landi og í lóninu.
Óshólmanefnd ítrekar ánægju sína með jákvæða þætti tilllagnanna en leggur áherslu á að allra leiða verði leitað við lokahönnun allra mannvirkjanna til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið og þá sérstaklega hvað varðar leirur og grynningar í lóninu. Einnig að þess verði gætt að fuglar eigi greiða umferðarleið með unga frá varpstað í skóginum út í lónið.
2) Mörk hverfisverndarsvæðis við Eyjafjarðarbraut eystri
Í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 er sérkort yfir norðurhluta sveitarinnar. Þar er eins og strikunin sem táknar hverfisverndarsvæðið nái ekki alveg að Eyjafjarðarbraut eystri úti á leirunum, heldur er undanskilin rönd vestan vegarins. Í texta Aðalskipulagsins eru mörk hverfisverndar- svæðisins sögð við Eyjafjarðarbraut eystri og þannig hefur svæðið verið skilgreint frá upphafi.
Óshólmanefnd óskar eftir því að málið verði skoðað og tryggt að samræmi sé milli texta og korta.
3) Önnur mál
Formanni falið að grennslast fyrir um hvað líði ákvörðun um hvort eigi að endurheimta vatnsrennsli í austustu kvísl Eyjafjarðarár.
Ritari sendi fyrirspurn til Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, sbr. síðustu fundargerð, varðandi vatnsstöðu á Hvamms- og Kjarnaflæðum og þröskuld í Brunná. Í svari sem barst kemur fram að stefnt sé að því að skoða málið að loknum sumarleyfum.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 18-55

Getum við bætt efni síðunnar?