Sveitarstjórn

627. fundur 22. febrúar 2024 kl. 08:00 - 10:10 fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Hermann Ingi Gunnarsson
  • Linda Margrét Sigurðardóttir
  • Berglind Kristinsdóttir
  • Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
  • Sigurður Ingi Friðleifsson
  • Anna Guðmundsdóttir
  • Guðmundur Sigurbjörn Óskarsson
Starfsmenn
  • Stefán Árnason skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Árnason skrifstofustjóri
Dagskrá:
 
Fundargerð
1. 2402004F - Framkvæmdaráð - 144
Fundargerð 144. fundar framkvæmdaráðs tekin til afgreiðslu eins og einstakir liðir bera með sér.
1.1 2311014 - Framkvæmdir ársins 2024
 
Niðurstaða Framkvæmdaráð - 144
Farið yfir framkvæmdir ársins. Lokið hefur verið við endurnýjun á ljósum á göngum tónlistaskóla. Unnið er að endurnýjun á baðhergbergi og fataskápum í íbúð að Skólatröð 11, efstu hæð. Vinna við viðgerðir á lögnum í Laugarborg hefst í næstu viku.
Gefur ekki tilefni til ályktana.
 
 
2. 2402005F - Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Fundargerð 407.fundar skipulagsnefndar tekin til afgreiðslu eins og einstakir liðir bera með sér.
2.1 2208016 - Ytri-Varðgjá Vaðlaskógur - aðal- og deiliskipulag v/hótels
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýstum skipulagstillögum verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 1c, 3a, 4a, 5b, 5c, 8e, 9e, 9f og 10c á 404. fundi nefndarinnar. Ennfremur leggur nefndin til við sveitarstjórn að skilmálar um lendingarstað verði felldir úr auglýstum tillögum, að skipulagsmörk deiliskipulags að austan og sunnan verði samræmd við mörk V/Þ 22 í aðalskipulagstillögu, og að byggingarmagn verði aukið til samræmis við greinargerð hönnuða. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að svo breyttar aðal- og deiliskipulagstillögur verði samþykktar skv. 1. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku skipulaganna.
 
Anna Guðmundsdóttir vék af fundinum við afgreiðslu þessa fundarliðar.
Anna Guðmundsdóttir lýsti sig vanhæfa og vék af fundi undir þessum lið.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýstum skipulagstillögum verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu skipulagsnefndar á athugasemdum 1c, 3a, 4a, 5b, 5c, 8e, 9e, 9f og 10c á 404.fundi nefndarinnar. Þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða að skilmálar um lendingarstað verði felldir úr auglýstum tillögum og að skipulagsmörk deiliskipulags að austan og sunnan verði samræmd við mörk V/Þ 22 í aðalskipulagstillögu, og að byggingarmagn verði aukið til samræmis við greinargerð hönnuða.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða svo breyttar aðal- og deiliskipulagstillögur skv. 1. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa er falið að fullnusta gildistöku skipulaganna.
 
2.2 2311009 - Mikligarður II - umsókn um stofnun lóðar 2023
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindi verði samþykkt.
Afgreiðslu frestað.
 
2.3 2308015 - Stóri-Dalur - umsókn um stofnun sjö nýrra lóða
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd frestar erindinu og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að sannreyna landamerki aðliggjandi jarða á lóðaruppdrætti sem fylgir erindinu.
Gefur ekki tilefni til ályktana.
 
2.4 2402010 - Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 - umsögn 2024
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi skipulagslýsingu.
 
2.5 2402011 - Stekkjarhóll lnr 234754 - umsókn um byggingu heilsárshúss 2024
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að málshefjanda verði heimilað að vinna deiliskipulag vegna byggingaráformanna og að kallað verði eftir skipulagslýsingu skv. 1. mgr. 30 gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
Benjamín Örn Davíðsson vék af fundi við afgreiðslu þessa fundarliðar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málshefjanda verði heimilað að vinna deiliskipulag vegna byggingaráformanna og að kallað verði eftir skipulagslýsingu skv. 1. mgr. 30 gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
2.6 2402019 - Brúarland - fyrirspurn varðandi skipulagningu á íbúðasvæði 2024
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Nefndin bendir á að skipulagstillaga rammahluta aðalskipulags, sem nú er í vinnslu, gerir ráð fyrir að landnotkunarflokki umrædds lands verði breytt í íbúðarsvæði. Nefndin áréttar að drög að deiliskipulagi sem fylgja erindinu samræmast ekki skilmálum fyrrnefndar tillögu rammahluta aðalskipulags.
Gefur ekki tilefni til ályktana.
 
2.7 2402023 - Þormóðsstaðir L152844 - beiðni um skráningu landamerkja 2024
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins.
Gefur ekki tilefni til ályktana.
 
2.8 2402021 - Ytra-Laugaland L152830 - Akraborg, umsókn um stofnun lóðar
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.
 
Hákon Bjarki Harðarson vék af fundinum við afgreiðslu þessa fundarliðar.
Berglind Kristinsdóttir og Hermann Ingi Gunnarsson lýstu sig vanhæfa og véku af fundi við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða beiðni Hrafnagils ehf. um stofnun lóðar úr landi Ytra-Laugalands L15283
 
2.9 2402008 - Reykhús 4 - beiðni um að færa spildu undir bújörð 2024
 
Niðurstaða Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar - 407
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.
 
Anna Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa fundarliðar.
Anna Guðmundsdóttir lýsti sig vanhæfa og vék af fundi undir þessum lið.
Sveitarstjórn samþykkir erindið samhljóða.
 
 
Fundargerðir til kynningar
3. 2402014 - Samband íslenskra sveitarfélaga - fundargerð 942
Fundargerðin er lögð fram til kynningar og gefur ekki tilefni til ályktana.
 
4. 2402016 - SSNE - Fundargerð 60. stjórnarfundar
Fundargerðin er lögð fram til kynningar og gefur ekki tilefni til ályktana.
 
5. 2402020 - HNE - Fundargerð 234
Fundargerðin er lögð fram til kynningar og gefur ekki tilefni til ályktana.
 
Almenn erindi
6. 2402018 - Erindi frá Norðurorku dags 12.febrúar 2024
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.
 
7. 2402006 - Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu - drög til umsagnar
Sveitarstjórn fagnar umræðu um sjálfbæra nýtingu lands og telur mikilvægt að ekki sé gengið á náttúruna umfram það sem hún ber. Íslenskur landbúnaður hefur í gegnum aldirnar umgengist náttúruna af virðingu, skynsemi og ábyrgð enda byggist lifibrauð greinarinnar á sjálfbærni landsins. Staðarþekking bænda og þeirra sem landið nytja í sínu nærumhverfi er því ein af meginforsendum þess að mögulegt sé að tryggja sjálfbæra landnýtingu.
 
Sjálfbærni er mikilvæg fyrir land og þjóð, ekki síst fyrir þá sem landið nytja. Skrifræði er ekki jafn mikilvægt en ofur áhersla á það með nýjum stofnunum, sífellt meira íþyngjandi regluverki, auknu eftirliti og innleiðingum á nýjum stefnum og straumum draga úr samkeppnishæfni íslensks samfélags. Allt þetta eykur kostnað samfélagsins í heild sinni líkt og þessi reglugerð mun gera í núverandi mynd og verst koma niður á stétt sem nú þegar á undir högg að sækja.
Sveitarstjórn lýsir áhyggjum af því að verði drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu samþykkt án breytinga sé lagður steinn í götu íslensks landbúnaðar. Fari reglugerðin óbreytt í gegnum þingið eru ýmis atriði sem munu verða hamlandi fyrir íslenska matvælaframleiðslu og getur það á endanum leitt til þess að framleiðsla á íslenskum landbúnaðarafurðum, svo sem lambakjöti, skerðist verulega eða hverfi alfarið vegna verulega íþyngjandi reglna um nýtingu á beitarlöndum.
Ennþá ber reglugerðin með sér að einsleitur hópur hafi unnið að framsetningu hennar. Í viðauka tvö eru ýmis atriði sem gefa til kynna að þekkingu á íslenskum landbúnaði hafi verið ábótavant í þeim hóp sem að drögum reglugerðarinnar unnu.
 
Eyjafjarðarsveit telur margt óskýrt í drögum reglugerðarinnar sem þarf að skýra betur og lýsir verulegum áhyggjum af áhrifum þeirra óbreyttum á landnýtingu og þar með landbúnaðarstarfsemi í sveitarfélaginu. Í sveitarfélaginu er umfang landbúnaðar mikið og mun óbreytt reglugerð hafa mikil takmarkandi áhrif á þá starfsemi.
 
Bendir sveitarstjórn einnig á að í megindráttum sé reglugerðin í raun óþörf út frá sjónarmiði um nýtingu lands til beitar en lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl. (1986 nr.6 21.mars) taka á öllum megin atriðum reglugerðarinnar um að tryggja sjálfbæra nýtingu landsvæðis í samræmi við 11.grein laga um landnýtingu sem lög um arfréttamálefni, fjallskil o.fl. vitna í. En í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. fá þó svæðisbundnar aðstæður meira vægi heldur en í drögum af reglugerð um sjálfbæra landnýtingu og þarf að meta aðstæður áður en teknar eru ákvarðanir um beit á ári hverju. Bent er á að slíkt staðbundið mat fer óformlega fram á hverju ári þegar farið er í göngur af staðkunnugu fólki sem ber hag svæðisins og þar með talið náttúrunnar fyrir brjósti enda hefur það af henni sitt lifibrauð. Þá er að auki lagt mat á ástand náttúrunnar út frá tíðarfari áður en stjórn fjallskilamála ákvarðar um sleppidaga ár hvert.
 
Sveitarstjórn vill sérstaklega koma inn á eftirfarandi atriði í drögum reglugerðarinnar:
 
10.grein. Mat á ástandi lands og sjálfbærni landnýtingar
Í greininni kemur fram „mat á ástandi beitarlands skal vera heildstætt og ná til alls beitarlandsins, heimalanda og afrétta“.
Mikilvægt er að lesa þetta í samhengi við viðauka I. Með þessari setningu eru þá bundin í eitt og sama matið frjósamir og grasi grónir dalir, klettar, berangurslegir fjallstoppar og náttúrulegar eyðimerkur svo fátt eitt sé nefnt. Dalirnir þekja oft á tíðum lítinn hluta heildarlandsins og flokkast því með heildinni sem ósjálfbært land líkt og flokkur C eða D, nema að landeigandi takmarki för beitardýra upp úr dalnum með til dæmis girðingum. Með þessu er meðalhófsreglu gagnvart nýtingu svæðisins ekki gætt.
 
Sveitarstjórn lýsir verulegum áhyggjum af þessu og telur að með reglugerðinni sé gerð tilraun til að koma í veg fyrir að beitarréttur sé nýttur. Í því felist því raunverulega tilraun til að banna lausafjárgöngu búfjár þ.e. að landeigendum verði gert skylt að girða af öll svæði sem eru í yfir 30° halla eða í meira en 600m yfir sjávarmáli. Þar með sé aðilum gert skylt að taka allt land úr afrétt með friðun eða öðrum leiðum sem undir þessa skilgreiningu falla. Bent skal á að reynsla manna sé sú að beitardýr leita lítið sem ekkert í hæð sem er 600m yfir sjávarmáli og því séu slík svæði ekki markvisst nýtt til beitar búfjár. þá er vert að benda á að þau svæði sem eru í yfir 600m yfir sjávarmáli munu almennt ekki gróa nema með mikilli breytingu á veðurfari.
Ekki verður séð að hægt sé að færa skynsamleg rök fyrir þessu eða hvernig það samræmist meðalhófi. Sveitarstjórn telur að ef takmarka eigi beitarafnot þá þurfi það að byggja á þeirri kröfu að landnotkunin muni ein og sér leiða til hnignunar umrædds lands.
 
? Sveitarstjórn bendir á að hafa þurfi í huga að sauðfjárhald stendur ekki með nokkru móti undir þeim kostnaði sem ofangreindar kvaðir mundu hafa í för með sér og má því gera ráð fyrir að sauðfjárhald leggist að verulegu leiti af í landinu með tilheyrandi langtíma afleiðingum fyrir þjóðina og lakara fæðuöryggi í landinu. Í þessu samhengi skal nefna að einkenni íslensks lambakjöts og sérstaða þess á heimsvísu kemur fyrst og fremst til vegna þeirri fjölbreyttu fæðu sem féð hefur aðgang að þegar það gengur frjálst um fjöll og dali. Um er að ræða ríka menningarhefð sem hefur í gegnum aldirnar séð þjóðinni fyrir umhverfisvænni, lífrænni og næringarríkri fæðu á sjálfbæran máta.
 
Samkvæmt viðauka I í „viðmiðum um mat á ástandi beitarlands“ er landsvæði sem skilgreint er í flokki D „land sem er náttúrulega ógróið“.
Bendir sveitarstjórn á að slíkt land geti ekki talist til lands sem beit mun hafa nokkur sérstök áhrif á enda kemur fram í skilgreiningu flokksins „Þetta eru svæði með litla vistgetu að eðlisfari t.d. áreyrar, nýtt land (t.d. hraun, svæði sem er nýkomið undan jökli) og náttúrulegar eyðimerkur, t.d. vegna hæðar yfir sjó, veðurfars eða annarra aðstæðna“.
Telur sveitarstjórn því beinlínis ósanngjarnt að slíkt landsvæði sé tekið með í heildstæðu mati á beitarlandi og að meðalhófsreglu sé því ekki gætt við framsetninguna.
Þá kemur að auki fram í skilgreiningunni að „Svæði á láglendi með litla áætlaða vistgetu en í mikilli og örri framvindu, getur færst úr flokki D yfir í aðra flokka við vettvangsskoðun. Þessi svæði eru viðkvæm og þarf að fylgjast sérstaklega með séu þau í nýtingu.“
Ljóst er að svæði þessi hljóta að hafa verið rangt skilgreind í upphafi séu þau færð milli flokka og má því ekki horfa til þess að allt land í flokki D sé tekið með í heildstætt mat beitarlands einungs til að verja þau svæði sem mögulega hefðu átt að vera skilgreind í flokki C.
 
Sveitarstjórn leggur áherslu á að setningin „land sem flokka skal m.t.t. sjálfbærrar landnýtingar eru svæði sem eru markvisst nýtt til beitar búfjár“ og kemur fram í viðauka I sé færð inn í reglugerðina sjálfa undir grein 10.
Með þessu væri bundið í reglugerðina sjálfa og gert skýrt að ef ekki sé beinlínis markviss ásetningur manna að beita búfé á land í flokki D umfram aðliggjandi svæði sem oft eru í flokki A þá sé slíkt undanskilið því svæði sem skuli meta enda teljast svæði í flokki D að í flestum tilfellum frekar vera svæði sem búfé fer um til að komast á milli annarra hagfelldari svæða með meira fæði.
 
11.grein. Ósjálfbær landnýting og landbótaáætlun
Í greininni kemur fram „Leiði eftirlit Lands og skógar eða sveitarstjórnar með ástandi lands í ljós að nýting samræmist ekki viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu skv. reglugerð þessari skal Land og skógur taka ákvörðun um gerð landbótaáætlunar skv. 12. gr. laga um landgræðslu og leiðbeina eiganda og/eða rétthafa lands um það?...
Áætlunin skal unnin í samráði þeirra aðila sem nytja landið, eigenda þess og annarra umráðahafa. Landbótaáætlun skal staðfest skriflega af þeim sem nytja viðkomandi land, eigendum og umsjónaraðilum lands og framkvæmdaaðilum, eftir því sem við á hverju sinni.
 
Sveitarstjórn bendir á að samkvæmt lögum er landeiganda ekki heimilt að taka land úr afrétt án heimildar sveitarstjórnar. Í 6.grein laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. (1986 nr.6 21.mars) kemur fram „Það skulu vera afréttir, sem að fornu hafa verið. Þó getur [stjórn fjallskilaumdæmis] 1) ákveðið nýja afrétti eftir tillögum [sveitarstjórnar, ef við á], 1) og með samþykki landeiganda. Enn fremur geta [sveitarstjórnir, með samþykki stjórnar umdæmis, ef við á], 1) breytt takmörkum afrétta og lagt til þeirra land, er þær hafa full umráð yfir. Ekki verður afréttarland, þótt í einkaeign sé, gert að heimalandi, nema samþykki [sveitarstjórnar] komi til“.
Af þessu leiðir að inngrip varðandi landbótaáætlun af hálfu Lands- og skógar, og eftir atvikum landeiganda, getur því varðað við skipulagsvald sveitarfélaga og verður ekki byggt eingöngu á eignarrétti viðkomandi landeiganda. Því verður að benda á að Land- og skógur geti ekki einhliða tekið ákvörðun um að land skuli, varanlega eða til skemmri tíma, tekið úr afrétt eða beitarafnotum í trássi við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags. Þá brjóti það að auki á meðalhófi, atvinnurétti og eignarétti séu umráðaaðilar lands eða notendur þess sjálfir mótfallnir ákvörðuninni.
 
Sveitarstjórn bendir einnig á að sömu lög veita stjórnum fjallskilaumdæmis heimild til að bregðast við ef þörf er á að vernda ákveðin beitarlönd fyrir ágangi búfjár og má telja að það ákvæði sé fullnægjandi til að tryggja sjálfbæra nýtingu þess lands.
 
Með tilliti til markmiða laga um landgræðslu (2018 nr.155 21.desember) sem drög reglugerðarinnar byggja á um að „ vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands“ telur sveitarstjórn að æskilegt væri að horfa frekar til 7.greinar þeirra laga sem fjallar um svæðisáætlanir landgræðslu og byggja landbótaáætlanir almennt á þeim svæðum sem þar væru tilgreind. Með slíku vinnuferli geta sveitarfélög, landeigendur og Land- og skógur átt samvinnu um að skilgreina svæði sem æskilegt er að afmarka frá beitarálagi skepna út frá svæðisbundnum aðstæðum, áherslum sveitarfélaga og möguleikum landnýtingar og landgræðslu. Lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl. geta tekið á svæðisbundnum úrlausnum hverju sinni þegar þörf er á og væri mögulegt að kalla til þess að landbótaáætlun sé útbúin á afmörkuðu svæði af frumkvæði stjórnar fjallskilaumdæmis í samvinnu Lands- og skógar, landeiganda og viðkomandi sveitarfélags.
 
 
Að lokum
 
Ástæða er til að benda á að umfang viðauka reglugerðarinnar er mun meira en umfang reglugerðarinnar sjálfrar. Viðauki I er til þess fallinn að varpa skýrara ljósi á ákveðin atriði reglugerðarinnar og er ágætur sem slíkur þó sveitarstjórn geri ýmsar athugasemdir við innihald þess sem þar kemur fram. Hinsvegar eru viðaukar II, III og IV innbyggðar leiðbeiningar sem bæta litlum eða engum sérstökum gæðum við reglugerðina sjálfa, aðrar reglur eða lög sem um málefnin gilda. Mikilvægt er að draga úr umfangi viðaukanna og færa inn í reglugerðina það sem raunverulega skiptir máli.
 
Rík ástæða er til að innihald reglugerðarinnar valdi ekki misskilning og tilgangur hverrar greinar fyrir sig sé því mjög skýr. Telji þeir sem athugasemd þessa lesa að sveitarstjórn sé að misskilja ákveðna þætti reglugerðarinnar, séu að lesa rangt í hana eða túlka hana á annan hátt en meining höfunda var þá er öruggt að lögfræðingar geta nýtt sér þá túlkun að auki og er þá nauðsynlegt að leggja í vinnu við að skýra þá þætti enn betur.
 
Með engu móti er umsögn þessi tæmandi en fjölmargar góðar umsagnir hafa þegar skilað sér í samráðsgáttina bæði nú og þegar drögin voru fyrst tekin til umræðu árið 2021. Hvetur sveitarstjórn alla hlutaðeigandi aðila til að skoða vel þær umsagnir sem borist hafa.
 
Sveitarstjórn leggst gegn því að drög að reglugerð um sjálfbæra nýtingu verði samþykkt í óbreyttri mynd. Sveitarstjórn lýsir sig tilbúna til samtals við ráðuneytisins vegna málsins.
 
8. 2402002 - Viðbrögð við mönnunarvanda í leikskóla
Sveitarstjórn vill koma sérstökum þökkum til foreldra leikskólabarna fyrir þau jákvæðu og góðu viðbrögð sem voru við beiðni um aðstoð vegna mönnunarvanda á leikskólanum. Viðbragð ykkar og jákvætt viðhorf sýna okkur hversu samheldnu og góðu samfélagi við búum í og hefur að skilað sér í betra starfi og auknu svigrúmi til skipulagningar. Í síðustu viku bættist í starfsmannahópinn einn nýr starfsmaður og er unnið í atvinnusamtölum sem vonandi skila okkur enn fleira starfsfólki á næstu vikum.
Að svo stöddu hefur þó ekki enn tekist að manna leikskólann nægilega vel svo unnt verði að keyra starfsemina aftur á fullum afköstum. Vegna þess hve vel hefur gengið undanfarnar tvær vikur og í ljósi mikils velvilja foreldra til að hlaupa undir bagga með starfseminni hefur sveitarstjóri ákveðið að nýta ekki heimild til lokunar á leikskólanum á föstudögum meðan svo er og óskar þess í stað áfram eftir samstarfi við foreldra á sömu forsendum út mars eða þar til aðstæður hafa lagast.
 
Sveitarstjórn þakkar foreldrum kærlega samstarfið og leggur fulla áherslu á að unnt verði að komast fyrir mönnunarvandann sem allra fyrst.
 
9. 2402024 - Fundur SSNE með sveitarstjórn
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Elva Gunnlaugsdóttir mæta á fund sveitarstjórnar klukkan 9:00. Tilgangur heimsóknarinnar er að eiga samtal um starfsemi SSNE.
 
Albertina og Elva kynntu þau verkefni sem unnuð hefur verið að og þau verkefni sem eru framundan. Sérstaklega var farið yfir helstu áhersluverkefni í Sóknaráætlun Norðurlands eystra á næstu árum.
 
Almenn erindi til kynningar
10. 2402017 - Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2023
Sveitarstjórn fagnar því að mismunur á orkuverði milli dreifbýlis og þéttbýlis hafi dregist saman á undanförnum árum en bendir á að enn er langt í land og mikilvægt að unnið verði áfram að stuðla að enn frekara jafnvægi þar á milli.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:10
Getum við bætt efni síðunnar?