Fréttayfirlit

Truflanir á þjónustu í Reykárhverfi

Í dag 1. desmber má reikna með einhverjum rekstrartruflunum í hitaveitunni í Reykárhverfi og nágrenni, vegna framkvæmda við nýju hitaveituna svonefnda vesturveitu frá Botni að Grund og Finnastöðum. Nýja veitan verður tengd vinnslusvæðinu að Botni í dag og því möguleiki á einhverjum truflunum fram eftir degi.
 
Við vonum að þetta verði minniháttar og hafi óveruleg áhrif.  Viðskiptavinir eru engu að síður beðnir að gæta að loftæmingu hitakerfa og þess háttar í kvöld þegar hætta á truflunum á að vera yfirstaðin.
 
 
Við biðjum notendur í Eyjafjarðarsveit velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og vonum að okkur takist að ljúka þessu í dag eins og að er stefnt.

Norðurorka

01.12.2010

Til barna, foreldra og forráðamanna!

Frá og með 1. janúar 2011 breytist reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Börnum yngri en 10 ára verður þá óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri.
Ekki verður leyfilegt fyrir viðkomandi að hafa fleiri en tvö börn í sinni umsjón, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann þeirra.

Virðingarfyllst,
starfsmenn íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar

01.12.2010

Sundlaug Eyjafjarðarsveitar

Eftir hádegi miðvikudaginn 1. desember verður lár þrýstingur á heita vatninu frá Norðurorku.
Þess vegna gætu orðið einhverjar truflanir á opnun sundlaugar þennan dag.
Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar

30.11.2010

Truflanir á þjónustu í Eyjafjarðarsveit - bilun á borholudælu

Undanfarna viku hafa orðið nokkrar rekstrartruflanir á hitaveitunni í Eyjafjarðarsveit.  Fer þar saman að borholudæla að Botni gaf sig, með þeim afleiðingum að hífa þurfti hana upp úr holunni og gera við og á sama tíma var unnið að tengingum á nýrri stofnlögn suður Eyjafjörð við vinnslusvæðið á Botni. 
 
Þetta hefur leitt til rekstrartruflanna á svæðinu með tilheyrandi óþæginda fyrir notendur, jafnframt því að ekki hefur verið hægt að hafa sundlaugina á Hrafnagili opna.
 
Vonir standa til þess að hægt verði að ljúka nauðsynlegum viðgerðum á morgun föstudaginn 26. nóvember þannig að rekstrartruflanir hætti og hægt verði að hleypa vatni á sundlaugina.
 
Við biðjum notendur í Eyjafjarðarsveit velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið og vonum að okkur takist að ljúka þessu fyrir helgi eins og að er stefnt.
 
Starfsfólk Norðurorku hf.

25.11.2010

Sundlaugin lokuð 22.-26. nóvember 2010

Sundlaugin verður lokuð vikuna 22. – 26. nóvember vegna bilunar hjá Norðurorku.
Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar

24.11.2010

Hestamenn athugið!

Haldinn verður forvarnar- og fræðslufyrirlestur að Funaborg sunnudaginn 28 nóvember.
Fulltrúi frá VÍS kemur og verður með kynningu á tryggingum fyrir hesta og hestamenn.
Elfa Ágústsdóttir dýralæknir fer yfir helstu slysagildrur í hesthúsum, hvers ber að varast þegar hestar eru teknir á hús og hvað er gott að eiga til í sjúkrakassanum.
Lífland mætir á svæðið og verður með öryggisbúnað til sýnis.

Húsið opnar kl. 15:30 og fyrirlestrar hefjast kl. 16:00, opnað verður fyrir umræður að fyrirlestrum loknum.

F.h. fræðslunefndar Funa
Edda Kamilla

22.11.2010

Kosningar til stjórnlagaþings 27.11.2010

Kjörskrá fyrir Eyjafjarðarsveit vegna kosninga til stjórnlagaþings þann 27. nóvember 2010, liggur frammi á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar að Syðra-Laugalandi frá og með 17. nóvember 2010 til kjördags.
Opnunartími skrifstofunnar er milli kl. 10-14.

Kjörfundur hefst kl. 10 og lýkur kl. 18. Kjörstaður í Eyjafjarðarsveit verður í Hrafnagilsskóla. Á kjörstað gerir kjósandi grein fyrir sér með framvísun skilríkja eða á annan fullnægjandi hátt. Á kjördegi hefur kjörstjórn aðsetur í Hrafnagilsskóla, sími 464-8100 eða 899-4935. Kjörstjórn í Eyjafjarðarsveit þann 16. nóvember 2010 eru Emilía Baldursdóttir,  Níels Helgason og  Ólafur Vagnsson.
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar

15.11.2010

Jólabazarinn

   
Jólabazarinn “Undir Kerlingu” í landi Fífilbrekku, Eyjafjarðarsveit verður haldinn
20. nóv. kl. 13.00 – 17.00.
Boðið upp á ýmiss konar listmuni, gómsæta vöru, uppákomur og draumaspeglanir í fallegu umhverfi. Forn vöruskipti verða m.a. í heiðri höfð.
Jólabazarinn er haldinn í samstarfi við Mardöll – félag um menningararf kvenna.
Nánari upplýsingar hjá Höddu í síma 8998770 og hadda@simnet.is
Sjá nánar á http://www.mardoll.blog.is/
Við erum undir berum himni, svo klæðið ykkur samkvæmt því.

15.11.2010

Skoðanakönnun um sorphirðumál í Eyjafjarðarsveit

Niðurstöður skoðanakönnunar um sorphirðumál í Eyjafjarðarsveit, má lesa hér (klikkið á orðið hér). Sjá má tillögu umhverfisnefndar sem tekin var, meðal annars út frá niðurstöðum könnunarinnar, í fundargerð frá 102. fundi nefndarinnar dags. 8.11.2010. Fundargerðin er hér á síðunni undir fundargerðir.
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar

12.11.2010

Allra heilagra messa


Á allra heilagra messu sunnudaginn 7. nóvember verður kvöldmessa í Munkaþverárkirkju með altarisgöngu kl. 21. Minnst verður látinna og beðið fyrir syrgjendum. Kórinn hefur æft upp söngdagskrá og verður flutt Credó úr Munkaþverárhandrituna frá 1473. Daníel Þorsteinsson, organisti, kynnir hér þetta verk í stuttum pistli og annan tónlistarflutning:

"Grúskað í fornum skinnhandritum:
Kirkjukór Laugalandsprestakalls flytur hluta af Credo in unum deum eða Trúarjátninguna úr Munkaþverárhandritinu frá 1473. Skinnhandrit þetta fannst hjá almúgabónda einum í Eyjafirði og barst þaðan til Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn árið 1715. Handritið, sem talið er skrifað af Jóni Þorlákssyni í klaustrinu á Munkaþverá, er einhver fyrsta heimild um raddaðan söng á Norðurlöndum og í raun einskonar afsprengi Gregorsöngs og hins rammíslenska tvísöngs.
 
Að auki mun kórinn flytja tvo sálma séra Hallgríms Péturssonar Nú vil ég enn í nafni þínu og Kvöldvers, enskan kórvesper eða aftansöng við 23. Davíðssálm, Ave Maria eftir Nyberg og lag Beethovens Hljóða nótt."

Nánari upplýsingar: smellið á eftirfarandi link:
Fréttabréf Laugalandsprestakalls á pdf formi.

03.11.2010