Jörundur í Freyvangi

Freyvangsleikhúsið tekur í febrúar næstkomandi til sýninga söng– og gleðileikinn "Þið munið hann Jörund" eftir Jónas Árnason.

Allir þekkja ævintýrið um Jörund sem kom hingað til Íslands og gerðist þar yfirvald nánast upp á sitt eindæmi. Tónlist verksins hefur verið gerð ódauðleg í gegnum tíðina, Þrjú á Palli spiluðu og sungu undir sýningunni í fyrstu uppfærslu hennar árið 1970 og í seinni tíð hafa Papar tekið tónlistina upp á sina arma. Í Freyvangi er ekki heldur slegið af í tónlistardeildinni og valdir menn og konur í hverju rúmi. Hermann Arason og Eiríkur Bóasson, gamalreyndir tónlistarmenn, ganga fyrir vöskum hópi hljómlistarfólks. Þá er leikaraliðið ekki síðra og valdir menn í hverju rúmi. Meðal annarra leika burðarhlutverk Ingólfur Þórsson, Jónsteinn Aðalsteinsson, Stefán Guðlaugsson og Hannes Örn Blandon, en Sigríður Hulda Arnardóttir er aðalleik- og söngkona sýningarinnar. Öll hafa þau langa reynslu með Freyvangsleikhúsinu og öðrum leikfélögum. Alls eru tónlistarmenn og leikarar vel á þriðja tug og þessum stóra hóp stjórnar engin önnur en Saga Jónsdóttir, ástsæl leikkona og afskaplega eftirsóttur leikstjóri.

Nú strita leikarar, tónlistarfólk, leikstjóri, búningahönnuðir og smiðir við að gera allt klárt í Freyvangi fyrir verkefni sem er meðal þeirra stærstu sem Freyvangsleikhúsið hefur ráðist í. Eftirvæntingin er mikil og hefur verið sett í gang forsala á netinu fyrir sýninguna, en það er nýmæli hjá þessu gamalgróna leikfélagi. Þegar hefur selst nokkuð af miðum og því hvetjum við fólk til að panta í tíma, enda hefur sýningunni verið sýndur mikill áhugi.

Frumsýning föstudaginn 22. febrúar kl. 20.30 UPPSELT
Önnur sýning sunnudaginn 24. febrúar kl 20.30 ATH! LAUS SÆTI!
Þriðja sýning föstudaginn 29. febrúar kl. 20.30
Fjórða sýning Sunnudaginn 2. mars kl. 20.30
Fimmta sýning föstudaginn 7. mars kl. 19.00 ATH! BREYTTUR TÍMI
Sjötta sýning laugardaginn 8. mars kl. 20.30

Upplýsinga um sýningar lengra fram í tímann má leita á netfanginu sverrirfridriksson@gmail.com eða í síma 463 1392. Forsala aðgöngumiða fer fram á heimasíðu leikfélagsins, www.freyvangur.net sem er uppfærð reglulega með nýjum upplýsingum um sýningardaga.

Við hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu.

Ferðaþjónustan Öngulsstöðum III býður upp á leikhúsmatseðil fyrir sýningar.
Síminn hjá Ferðaþjónustunni er 463 1380.