Laus til umsóknar staða skólastjóra Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit

Fréttir
Hrafnagilsskóli
Hrafnagilsskóli

Eyjafjarðarsveit auglýsir eftir framúrskarandi einstaklingi til að taka að sér það spennandi verkefni að leiða skólastarf Hrafnagilsskóla í Hrafnagilshverfi. Leitað er að einstaklingi sem hefur skýra framtíðarsýn í skólamálum, er skapandi og metnaðarfullur og tilbúinn að móta og þróa skólastarf sveitarfélagsins í samvinnu við skólasamfélagið.

Hrafnagilsskóli hefur skapað sér afar gott orð í gegnum tíðina og samanstendur af frábærum mannauð og er það metnaður sveitarstjórnar og samfélagsins alls að stuðla að framúrskarandi skólaumhverfi í Eyjafjarðarsveit.

Hrafnagilsskóli er einn af fjölmennustu skólum sem starfa í dreifbýli á Íslandi með 180 nemendur. Skólinn og sú aðstaða sem fyrir hendi er gerir staðinn að miðstöð sveitarfélagsins í mörgu tilliti. Þar er góð íþróttaaðstaða, aðalstöðvar Tónlistarskóla Eyjafjarðar og bókasafn Eyjafjarðarsveitar er innan skólahússins. Sveitarfélagið fjárfestir nú ríkulega í að efla innviði skólaumhverfisins enn frekar sem og íþróttamiðstöðvarinnar í Hrafnagilshverfi. Á árinu 2025 flytur leikskólinn Krummakot yfir í glænýja glæsilega sambyggða byggingu við Hrafnagilsskóla og í framhaldi af því hefjast framkvæmdir við nýtt bókasafn/upplýsingaver, nýja starfsmannaaðstöðu, tónmenntastofu og hreyfisal. Opnast með þessu spennandi möguleikar til enn frekari þróunar á skólastarfinu sem mikilvægt er að nýr skólastjóri taki þátt í að leiða.

Eyjafjarðarsveit vinnur nú að gerð nýrrar menntastefnu og mun innleiðingaferli hennar hefjast haustið 2024.

Hlýlegt viðmót sveitunga og fallegt umhverfi eru sérkenni Eyjafjarðarsveitar sem er samheldið og gott samfélag við bæjardyr Akureyrar.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Að veita skólanum faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi.
  • Að leiða samstarf nemenda, starfsfólks og foreldra.
  • Að stýra og bera ábyrgð á rekstri skólans og daglegri starfsemi.
  • Móta framtíðarstefnu í samstarfi við nemendur, starfsfólk og foreldra innan ramma laga og reglugerða og í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og nýja menntastefnu Eyjafjarðarsveitar sem áætlað er að verði tilbúin haustið 2024.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Leyfi til að nota starfsheitið kennari og kennslureynsla á grunnskólastigi.
  • Viðbótarmenntun í stjórnun eða önnur sérhæfing sem snýr að skólaþróun, stjórnun, rekstri eða stjórnsýslu.
  • Leiðtogahæfni, frumkvæði og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Samvinnuþýði og jákvæðni í samskiptum við samstarfsmenn og aðra þá er starfinu tengjast.
  • Reynsla af faglegri forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi er æskileg.
  • Færni, löngun og metnaður til að leita nýrra leiða í skólastarfi og leiða framsækna skólaþróun.
  • Færni í áætlanagerð og fjármálastjórnun.
  • Faglegur metnaður, hugmyndaauðgi og skipulagshæfni.
  • Góð tölvukunnátta.
  • Íslenskukunnátta C1 samkvæmt samevrópskum staðli um tungumálakunnáttu.

Umsókn skal fylgja greinargott yfirlit um nám og störf (ferilskrá), leyfisbréf til kennslu, meðmæli og stutt kynningarbréf á umsækjanda þar sem umsækjandi gerir grein fyrir sýn sinni á skólamál, færni sinni og getu til að leiða starfsemi Hrafnagilsskóla á farsælan máta. Ráðið verður í stöðuna frá 1. ágúst 2024. Laun eru samkvæmt samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ v/ Skólastjórafélags Íslands.

 

Frekari upplýsingar um starfið veitir Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í síma 463-0600 eða á netfangið sveitarstjori@esveit.is.

Umsóknum skal skilað til sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar merk „Starfsumsókn skólastjóri Hrafngilsskóla“ á netfangið sveitarstjori@esveit.is.

Umsóknarfrestur er til og með 18.04.2024.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.