Tilkynning um endurskoðun skólastefnu

Fréttir

Sveitarstjórn samþykkti á 626. fundi sínum þann 8. febrúar 2024 að ganga til samninga við Ásgarð skólaráðgjöf á Akureyri um vinnu við endurskoðun skólastefnu Eyjafjarðarsveitar frá árinu 2017.

Verkefnið er fólgið í því að greina núverandi stöðu á gildandi skólastefnu og skólastarfi, móta nýja stefnu en í henni verður sett ný framtíðarsýn með skýrum viðmiðum um gæði skólastarfs. Samhliða endurskoðun verður gerð þriggja ára innleiðingaráætlun og aðgerðum forgangsraðað.

Rík áhersla er lögð á samráð við stjórnendur skólanna, kennara og annað starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra íbúa sveitarfélagsins við endurskoðun skólastefnunnar. Opið ferli og samtal við samfélagið er mikilvægt svo vel takist til við mótun stefnu og innleiðingu enda er slíkt grundvöllur þess að sem mest sátt ríki um stefnuna. Mikilvægt er að fólk hafi tækifæri til að meta stöðu og framgang gildandi skólastefnu og leggja sitt af mörkum við endurskoðunina. Til þess að hægt sé að bæta skólastarf þarf að vera til staðar skilningur á núverandi stöðu og aðstæðum. Stöðumatið gerir sveitarfélaginu kleift að skilgreina mikilvæg viðfangsefni. Afrakstur þess er notaður til að móta stefnuna sem á að færa skólana nær framtíðarsýninni með skilgreindum aðgerðum byggðum á viðmiðum um gæði.

Markmiðið er að ný skólastefna verði tilbúin í haust og í mars til júní verður samtal við samfélagið og m.a. verða lagðar fyrir kannanir, haldinn íbúafundur, fundir í skólunum, samtöl við nemendur, foreldra og starfsfólk og annað það sem nýtist til þess að móta nýja stefnu.

Sveitarstjórn hefur skipað stýrihóp til þess að halda utan um verkefnið undir verkstjórn ráðgjafa Ásgarðs. Stýrihópinn skipa:

  • Hermann Ingi Gunnarsson, oddviti sveitarstjórnar
  • Anna Guðmundsdóttir, skólanefndarfulltrúi/formaður skólanefndar
  • Sigríður Bjarnadóttir, sveitarstjórnarfulltrúi
  • Guðmundur S. Óskarsson, skólanefndarfulltrúi/sveitarstjórnarfulltrúi

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri starfar með hópnum.

Stýrihópur hefur samráð við stjórnendur skólanna, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila skólasamfélagsins í endurskoðunarferlinu.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi í Ásgarði skólaráðgjöf með netfangið gunnthor@ais.is eða í síma 699-1303.

Með von um gott samstarf og góða þátttöku.

Stýrihópur um endurskoðun skólastefnu Eyjafjarðarsveitar