Um efnistöku.

Ásókn í að taka efni úr Eyjafjarðará, eyrum þveráa hennar og úr óshólmasvæði Eyjafjarðarár hefur stóraukist að undanförnu. Búast má við að þessi ásókn eigi enn eftir að aukast ekki síst vegna þess að námum hefur víða verið lokað í nágrannasveitarfélögunum eins og t. d. á Akureyri og stórar verklegar framkvæmdir, sem krefjast mikils efnis til fyllingar eru framundan. Stærsta einstaka framkvæmdin er væntanlega lenging Akureyrarflugvallar, en áætlað er að hún þarfnist ca. 120 – 130 þús. rúmm. af fyllingarefni. Fyrirhugað mun að bjóða þessa framkvæmd út innan tíðar.

Í lögum er víða að finna ákvæði um efnistöku s. s. í skipulags- og byggingarlögum, lögum um náttúruvernd, lögum um lax- og silungsveiði og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Megininntak laganna er það að öll efnistaka er óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags. Þá þurfa efnistökustaðirnir að vera skilgreindir í skipulagsáætlun sveitarfélaganna.
Í staðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 – 2025 eru eftirtalin efnistökusvæði skilgreind:
Í Eyjafjarðará fyrir landi Vagla.
Í landi Stokkahlaða.
Í landi Gilsár.
Í landi eyðibýlisins Víðiness.
Í land Munkaþverár.
Í landi Þverár.
Í landi Ytri-Hóls

Lagaákvæðin eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða efnistöku í eða við veiðivatn eða á landi og úr hafsbotni. Í lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/2006, er þetta ákvæði að finna um efnistöku og framkvæmdir:
Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiða eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Landbúnaðarstofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.
Leyfi Landbúnaðarstofnunar skal aflað áður en framkvæmdir hefjast.
Í lögum nr. 73/1997, um skipulags- og byggingarmál, eru ákvæði um efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga, en þar segir svo í 2. mgr. 27.gr. þeirra laga:

Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tilskilins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.
Undantekningu frá þessu ákvæði er að finna í 3. mgr. 47. gr laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, sem svo hljóðar:
Eiganda eða umráðmanni eignarlands er heimil án leyfis minniháttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta verndar skv. 37. gr. þeirra laga.
Efnistaka úr Eyjafjarðará og á óshólmasvæðinu hefur komið til umræðu í sveitarstjórn auk þess sem stjórn veiðifélags hennar hefur látið málið til sín taka og lýst áhyggjum sínum vegna hennar. Um það segir efnislega svo í bréfi stjórnarinnar til sveitarstjórnar dags. 7. mars 2007:
Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár hefur lagt áherslu á að farið verði eftir gildandi reglum um efnistöku í og við veiðivötn sbr. fyrst og fremst ákvæði laga nr. 61/2006, um lax og silungsveiði. Í lögunum segir að Landbúnaðarstofnun skuli veita leyfi til framkvæmda við ár og vötn og að við leyfisveitinguna skuli liggja fyrir álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Það er síðan hlutverk sveitarstjórnar að gefa út framkvæmdaleyfi að fengnu jákvæðu áliti og umsögnum fyrrgreindra aðila. Þótt stjórn félagsins leggi á það áherslu að fylgt sé reglum og fyrirmælum hvað efnistökuna varðar er hún henni ekki mótfallin, enda sé sýnt fram á að áhrif hennar séu óveruleg og eftir atvikum, að gripið sé til mótvægisaðgerða vegna þeirra. Stjórnin telur sig þó ekki geta veitt leyfi eða umsögn um efnistöku án þess að fyrir liggi áðurgreind umsögn sérfræðings sem félagið getur haft til hliðsjónar við umfjöllun sína.
Bréf stjórnar veiðifélagsins varð tilefni til þess að sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum hinn 3. apríl 2007 svohljóðandi ályktun:
“Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ályktar að stöðva beri þegar í stað alla efnistöku úr Eyjafjarðará og óshólmasvæði árinnar vestan Eyjafjarðarbrautar eystri hafi ekki verið gefin út formleg framkvæmdaleyfi hennar vegna.“ Ályktun sinni til stuðnings vísaði sveitarstjórn til 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem vitnað er til hér að framan.
Það tókst ekki sem skyldi að fylgja þessari ályktun eftir og var hafinni efnistöku að mestu lokið áður en til stöðvunar hennar gat komið. Nú eru hins vegar engin framkvæmdaleyfi í gildi til efnistöku á fyrrnefndum svæðum.
Þá hefur sveitarstjórn einnig bókað eftirfarandi:

“Með vísan til þessa (sbr. fyrrnefnda ályktun) telur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar nauðsynlegt að láta fara fram faglega rannsókn á áhrifum efnistökunnar og hefur hún í því samhengi samþykkt eftirfarandi:
• Að nú þegar verði hafinn undirbúningur að faglegu mati á Eyjafjarðará og óshólmasvæðinu m. t. t efnistöku.
• Metið verði hversu mikið efni er að finna á svæðinu og hve hratt það endurnýjast.
• Þegar slíkt mat hefur farið fram þarf að ákveða hversu mikið magn sé óhætt eða ásættanlegt að tekið sé árlega til brottflutnings m. t. t. veiði í Eyjafjarðará, hugsanlegra breytinga á falli árinnar (breytingar á meginfarvegi hennar) og hættu á nýju landbroti af hennar völdum o. fl.
• Verði niðurstaða faglegrar úttektar og rannsókna sú að efnistaka verði heimiluð kann að vera nauðsynlegt að setja fastar vinnureglur um ýmislegt sem snýr að efnistökunni s. s. hvenær efnistakan megi fara fram og hvar, á einum stað eða fleirum samtímis o. s.frv.

Sérfræðingur Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki hefur tekið að sér að leggja mat á þessa þætti og vonast er til að bráðabirgðaniðurstaða hans liggi fyrir innan skamms.
Ákvæði um rannsókn af þessu tagi er síðan að finna í greinargerð með nýlega staðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 – 2025. Í því felst að efnistaka verður ekki heimiluð úr Eyjafjarðará eða af óshólmasvæðinu fyrr en niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið kynntar. Þá mun sveitarstjórn í samvinnu við hagsmunaaðila taka afstöðu til þess hvort og þá á hvaða forsendum efnistaka verði leyfð og gera þá nauðsynlegar breytingar á aðalskipulaginu til að hún geti hafist að nýju.

Niðurstaða: Efnistaka er að svo komnu máli óheimil úr Eyjafjarðará og af óshólmasvæðinu þar til niðurstaða fyrrnefndra rannsókna er fyrirliggjandi og skipulagsskilmálum hefur verið breytt ef ástæða þykir til að heimila efnistöku á grundvelli rannsóknanna.
Eins og áður hefur komið fram er efnistaka á landi háð nokkuð öðrum skilmálum en efnistaka úr eða við veiðivötn. Þeir annmarkar voru á lögum um náttúruvernd, þar sem um slíka efnistöku var fjallað, að efnistaka á svæðum, þar sem hún var hafin fyrir gildistöku þeirra, var undanþegin framkvæmda-leyfisskyldu. Í sameiginlegu dreifibréfi Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar, sem dags. er 7. des. 2007 og sent hefur verið öllum sveitarstjórnum, er minnt á að lögunum hefur nú verið breytt þannig að öll efnistaka sem nær yfir 25.000 ferm. svæði eða meira eða efnistaka er áætluð 50.000 rúmm. eða meiri er eftir 1. júlí 2008 óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar samanber 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sama á við um efnistöku á verndarsvæðum, en undir það fellur t. d. óshólmasvæðið (héraðsvernd). Jafnframt er í bréfinu vakin athygli á ábyrgð sveitarstjórna á eftirliti með efnistöku og að framkvæmdir séu í samræmi við útgefin framkvæmdaleyfi.
Fyrrnefndar stofnanir líta svo á að efnistaka á svæðum, sem þegar hafa náð þeirri stærð sem vísað er til í bréfi þeirra, sé háð útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar ef frekari efnisvinnsla er fyrirhuguð.
Í þessu samhengi er einng vakin athygli á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Þar eru skýr fyrirmæli í 1. viðauka laganna, að „efnistaka á landi eða úr hafsbotni þar sem áætluð efnistaka raskar 50.000 ferm. svæði eða stærra eða er 150.000 rúmm. eða meiri“ skuli ávallt háð mati á umhverfisáhrifum. Í 2. viðauka sömu laga eru taldar upp framkvæmdir sem í hverju einstöku tilviki skal
meta „með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum.“ Undir það ákvæði fellur efnistaka á landi eða úr hafsbotni „þar sem áætluð efnistaka raskar 25.000 ferm. svæði eða stærra eða er 50.000 rúmm. eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 25.000 ferm.“
Þau efnistökusvæði í Eyjafjarðarsveit, sem gætu fallið undir þessi ákvæði, eru væntanlega fyrst og fremst svæðin við Munkaþverá og Þverá ytri.

Niðurstaða: Öll efnistaka á landi eða úr hafsbotni innan netlaga er frá og með 1. júlí 2008 háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórna. Sveitarstjórnum ber skylda lögum samkvæmt til að stöðva eftir þann tíma alla efnistöku sem ekki hefur verið aflað leyfis fyrir.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vill með vísan til þess sem hér hefur verið rakið hvetja eigendur efnistökusvæða og framkvæmdaaðila til að hefja nú þegar undirbúning að öflun leyfa til þeirrar efnistöku sem þeir áætla að þörf verði fyrir á komandi sumri og þeir vilja láta framkvæma. Umsóknar- og afgreiðsluferlið getur tekið nokkurn tíma og því er nauðsynlegt að bregðast fljótt við svo ekki þurfi að koma til stöðvunar á framkvæmdum á efnistökusvæðunum frá og með 1. júlí n. k. Það er allra hagur að þessi mál séu í föstum farvegi og innan þeirra marka sem lög ætlast til. Óheft og skipulagslaus efnistaka getur auðveldlega valdið óbætanlegu tjóni á ásýnd landsins og náttúru þess og það ber að forðast.
Á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar eru fyrirliggjandi leiðbeiningar fyrir þá sem vilja sækja um framkvæmdaleyfi ásamt umsóknareyðublöðum. Undirritaður veittar nánari upplýsingar til þeirra sem þess óska.

F. h. sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar.
Sveitarstjóri.