Umsögn sveitarstjórnar um DRÖG að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum

Eftirfarandi bókun lögð fram og samþykkt samhljóða:
"Á heimasíðu Atvinnuvega og nýsköpunnarráðuneytisins eru kynnt drög að frumvarpi um kerfisáætlun
Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum.
Aðalbreytingin hvað sveitarfélögin varðar er grein 9.c. þar sem fjallað er um stöðu kerfisáætlunnar gagnvart skipulagi sveitarfélaga, þar segir að sveitarfélögunum beri að samræma skipulag kerfisáætlun raforkudreifiyrirtækis. Þar segir ennfremur:
,, Ef flutningslínu er valinn annar staður, eða önnur útfærsla, en sá sem
flutningsfyrirtækið telur réttast með tilliti til kostnaðar, opinberra viðmiða og
tæknilegrar útfærslu, og viðkomandi umbeðin útfærsla er umfram það sem samræmist
opinberri stefnu stjórnvalda og viðmiðum, er heimilt að krefja þann sem óskar slíkrar
breytingar um kostnaðarmuninn leiði sú útfærsla eða staðsetningarval til aukins
kostnaðar."
Af þessu tilefni vill sveitastjórn benda á að ágreiningur milli raforkudreififyrirtækja og sveitarfélaga snýst aðallega um hvar skuli lagðar loftlínur og hvar jarðstrengir. Í raun hafa dreififyrirtækin komist að þeirri niðurstöðu að 66. kv spenna og lægri fari í jörð en ágreiningur hefur verið um 220.kv línur.
Einnig er vert að hafa í huga að þörf fyrir styrkingu raforkudreifikerfisins er að stærstum hluta til komin vegna þarfa stóriðjunnar og því eðlilegra að þeir notendur greiddu aukakostnaðinn enn ekki sveitarfélögin.
Í greininni segir að staður og útfærsla flutningslínu skuli samræmast ,,opinberri stefnu stjórnvalda og viðmiðum."
Nú liggur opinber stefna og viðmið stjórnvalda ekki fyrir og áskilur sveitastjórn sér því allan rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri þegar stefna og viðmið liggja fyrir.
Að svo komnu máli hafnar því sveitastjórn alfarið 9.gr c. lið frumvarpsins í núverandi mynd. Einnig mótmælum við harðlega þeirri skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga sem fram kemur i frumvarpinu.