Fréttayfirlit

Vaðlaugin lokuð vegna bilunar - Uppfært: Komin í lag!

Vegna bilunar í stýribúnaði vaðlaugar verður hún lokuð í nokkra daga meðan unnið er að bilanagreiningu og viðgerð. Við hörmum þetta ástand en látum vita um leið og allt verður komið í lag. Önnur þjónusta sundlaugarinnar er í góðu lagi. Íþróttamiðstöðin
15.12.2023
Fréttir

Kæru sveitungar

Þar sem Pósturinn hættir með magnpóst þann 1. janúar nk. mun dreifing auglýsingablaðsins leggjast sjálfkrafa af. Áfram verður blaðið samt sett upp og birt á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Einnig verða prentuð út nokkur eintök sem verða aðgengileg í anddyri Skólatraðar 9 og í Íþróttamiðstöðinni fyrir gesti og gangandi. Annað verður með svo til óbreyttu sniði þ.e. auglýsingar þurfa að berast fyrir kl. 10:00 á þriðjudögum fyrir áðurnefnda prentaða útgáfu. Íbúum stendur áfram til boða að senda inn sína viðburði í viðburðadagatal á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Hér er slóðin og valið er „Senda inn viðburð“ https://www.esveit.is/is/mannlif/vidburdir Auglýsingablaðinu mun verða dreift miðvikudaginn 20. desember og síðasta blaðinu föstudaginn 29. desember.
12.12.2023
Fréttir

Helgihald í Eyjafjarðarsveit yfir hátíðarnar

Aðfangadagur Aftansöngur í Grundarkirkju kl. 22:00. Kirkjukór Grundarsóknar syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Prestur er Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hjörtur Haraldsson. Jóladagur Hátíðarmessa í Kaupangskirkju kl. 13:30. Söngfélagar við Kaupangskirkju syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Prestur er Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hansína María Haraldsdóttir. Annar dagur jóla Hátíðarmessa í Hólakirkju kl. 13:00. Félagar úr Kirkjukór Grundarsóknar syngja undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Prestur er Aðalsteinn Þorvaldsson og meðhjálpari Sveinn Rúnar Sigmundsson. Gamlársdagur Hátíðarguðsþjónusta í Munkaþverárkirkju kl. 11:00. Félagar úr Kirkjukór Grundarsóknar syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Prestur er Magnús G. Gunnarsson og meðhjálpari Benjamín Baldursson.
12.12.2023
Fréttir

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Síðasti opnunardagur fyrir jól er fimmtudagurinn 21. desember. Þá er opið frá kl. 14.00-18.00. Opið verður fimmtudaginn 28. desember milli kl. 14.00 og 18.00. Venjulegir opnunartímar safnsins eru: Þriðjudagar frá kl. 14.00-17.00. Miðvikudagar frá kl. 14.00-17.00. Fimmtudagar frá kl. 14.00-18.00. Föstudagar frá kl. 14.00-16.00. Á safninu er fjöldi bóka, tímarita og upplýsingaefnis, bæði til útláns, lestrar og skoðunar á staðnum. Komið við á bókasafninu og kynnið ykkur hvað þar er að finna. Bókasafnið er staðsett í kjallara íþróttahúss Hrafnagilsskóla og er gengið inn að austan. Ekið er niður með skólanum að norðan. Sjáumst á safninu, jólakveðja, bókavörður
12.12.2023
Fréttir

Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar - afleysingastörf

Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar auglýsir eftir karli og konu í afleysingastörf í tímavinnu. Viðkomandi verða á útkallslista íþróttamiðstöðvarinnar og geta verið kölluð inn í forföllum fastra starfsmanna. Um mjög líflegt og fjölbreytt starf er að ræða en í því felst m.a. öryggisgæsla, afgreiðsla, þrif og baðvarsla og samskipti við þjónustuþega íþróttamiðstöðvarinnar. Viðkomandi þurfa að vera orðnir 18 ára, tala íslensku, hafa hreint sakavottorð og geta staðist hæfnispróf sundstaða og setið skyndihjálparnámskeið komi til ráðningar. Þeir sem sækjast eftir störfunum fá jafnframt boð um sumarstarf í íþróttamiðstöðinni sumarið 2024. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags. Umsóknum þarf að fylgja ferilskrá með upplýsingum um meðmælendur og kynningarbréf viðkomandi umsækjanda. Tilvalið fyrir skólafólk og heimavinnandi. Skv. starfsánægjukönnun sumarstarfsmanna 2023 voru 87,5% mjög sammála þeirri fullyrðingu að mæla með vinnustaðnum við aðra og 12,5% frekar sammála. Tekið er á móti umsóknum á netfangið karlj@esveit.is. Nánari upplýsingar um starfið gefur Karl Jónsson í síma 691 6633 eða karlj@esveit.is
12.12.2023
Fréttir

Gatnagerðarframkvæmdir hafnar í Hrafnagilshverfi

Syðst í Hrafnagilshverfi eru nú hafnar framkvæmdir við gatnagerð. Er þarf verið að undirbúa um 30 íbúða byggð sem blandast af einbýli, raðhúsum og fjölbýli.
07.12.2023
Fréttir

Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 og árin 2025–2027

Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 og árin 2025–2027, var tekin til síðari umræðu og samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar þann 7. desember. Áætlunin gerir ráð fyrir að almennur rekstur sveitarfélagsins verði í jafnvægi líkt og undanfarin ár. Helstu niðurstöðutölur úr fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 eru: Tekjur eru áætlaðar kr. 1.794 millj. Gjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.464 millj. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 267,6 millj. og að veltufé frá rekstri verði 252,7 millj. Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 811,5 millj. á árinu 2024. Stærstu einstöku framkvæmdirnar eru við nýbyggingu leik- og grunnskóla 720 millj. og gatnagerð og fráveitu 50 millj. Gert er ráð fyrir að á árinu 2024 verði eignir seldar fyrir 80 millj. og tekið verði lán 150 millj. en það er fyrsta lántaka Eyjafjarðarsveitar síðan 2006. Á áætlunartímabilinu 2025 – 2027 er gert ráð fyrir fjárfestingu fyrir 1.156 millj. Þessum útgjöldum verður m.a. mætt með aðhaldi í rekstri, sölu eigna og lántöku. Áætluð lántaka tímabilsins er 317 millj. Skuldaviðmið Eyjafjarðarsveitar samkvæmt reglugerð er nú 0% en í lok framkvæmdatímabilsins er það áætlað 40%. Leyfilegt skuldahlutfall er 150% Þrátt fyrir þessar miklu framkvæmdir, 1.968 millj. á árunum 2024 – 2027 sem bætast við framkvæmdir á árunum 2022 og 2023 sem voru 313 millj., er og verður fjárhagsstaða Eyjafjarðarsveitar sterk. Ræður þar mestu að undanfarin ár hefur verið gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og skipulag og framtíðarsýn hefur verið skýr varðandi þær framkvæmdir sem nú er verið að ráðast í.
07.12.2023
Fréttir

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir tímabundinni afleysingu í móttökueldhús

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir tímabundinni afleysingu í móttökueldhús. ● Um er að ræða 50 - 100% stöðu eða e.t.v tvær 50% stöður. ● Afleysing a.m.k. bara í desember en möguleiki á meiri vinnu. ● Æskilegt er að byrja sem fyrst eða eftir samkomulagi. Allur matur er eldaður í eldhúsinu í Hrafnagilsskóla þannig að það þarf að taka á móti matnum og græja fyrir bæði matsal og vagna. Síðan er það frágangur og uppvask sem og að sjá um allan þvottinn. Þar sem að hann er mikill á svona stóru heimili. Leikskólinn er í Hrafnagilshverfi, aðeins tíu kílómetra sunnan Akureyrar. Á Krummakoti eru 74 dásamleg börn sem eru á aldrinum 1 - 6 ára. Svæðið í kringum skólann er sannkölluð náttúruperla, útikennslusvæðið stórt og gönguleiðir víða. Við leggjum áherslu á jákvæðan aga, söguaðferð og útikennslu. Starfsmannahópurinn á Krummakoti er öflugur og stendur þétt saman. Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands. Menntunar- og hæfniskröfur ● Skipulögð vinnubrögð, sjálfstæði og frumkvæði, góðir samskiptahæfileikar og þjónustulund. ● Metnaður og áhugi til að taka þátt í góðu skólastarfi. Umsóknarfrestur er til 15. des 2023. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og upplýsingar um meðmælendur. Öllum umsóknum verður svarað. Frekari upplýsingar veitir Erna Káradóttir leikskólastjóri í síma 464-8120, netfang erna@krummi.is
04.12.2023
Fréttir

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir að ráða leikskólakennara eða starfsfólk með aðra háskólamenntun til starfa

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir að ráða leikskólakennara eða starfsfólk með aðra háskólamenntun til starfa. Tveir kennarar í 100% Leikskólakennara eða starfsmann með aðra háskólamenntun sem nýtist í starfi. Um er að ræða 100% ótímabundna stöður á deild með yngri börnum. Æskilegt starfsbyrjun er 2. janúar 2024, sem fyrst eða eftir samkomulagi. Leikskólinn er í Hrafnagilshverfi, aðeins tíu kílómetra sunnan Akureyrar. Á Krummakoti eru 74 dásamleg börn sem eru á aldrinum 1 - 6 ára. Svæðið í kringum skólann er sannkölluð náttúruperla, útikennslusvæðið stórt og gönguleiðir víða. Við leggjum áherslu á jákvæðan aga, söguaðferð og útikennslu. Starfsmannahópurinn á Krummakoti er öflugur og stendur þétt saman. Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands. Unnið er að byggingu nýs húsnæðis fyrir leikskólann sem stefnt er á að opna árið 2024/2025 og gefst því færi á að taka þátt í spennandi tímum og mótun starfsins í nýju húsnæði. Menntunar- og hæfniskröfur Hæfni samkvæmt reglugerð 1355/2022 um almenna og sérhæfða hæfni kennara og leyfi til að nota starfsheitið kennari. Færni í að vinna í stjórnendateymi. Skipulögð vinnubrögð, sjálfstæði og frumkvæði, góðir samskiptahæfileikar og þjónustulund. Góð íslenskukunnátta skilyrði. Metnaður og áhugi til að þróa gott skólastarf. Umsóknarfrestur er til 15. des 2023. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og upplýsingar um meðmælendur. Öllum umsóknum verður svarað. Frekari upplýsingar veitir Erna Káradóttir leikskólastjóri í síma 464-8120, netfang erna@krummi.is
04.12.2023
Fréttir

Fjárfestahátíð Norðanáttar 2024 - Opið fyrir umsóknir

Fjárfestahátíð Norðanáttar er vettvangur fyrir sprota- og vaxtarfyrirtæki til að kynna verkefni sín sem snerta til dæmis orkuskipti, hringrásarhagkerfið, fullnýtingu auðlinda eða aðrar grænar lausnir fyrir fullum sal fjárfesta.
01.12.2023
Fréttir